Eftir að yfirtökunefnd hafði komist að þeirri niðurstöðu að yfirtökuskylda hefði myndast í FL Group hafa Baugur Group og Oddaflug selt töluverðan hluta af sínum bréfum og eiga nú undir 40% af heildarhlutafé félagsins. Ekki liggur fyrir hver eða hverjir keyptu bréfin.

Oddaflug, eignarhaldsfélag Hannesar Smárasonar, seldi 5% og er komið niður í 19,83% af heildarhlutafé FL Group. Baugur Group sömleiðis 5% er er hlutur félagsinsnú 19,24%.

Í yfirlýsingu frá yfirtökunefnd í kjölfar sölu bréfanna segir orðrétt:

"Yfirtökunefnd hefur í áliti, sem birt er í dag, komist að þeirri niðurstöðu að Baugi Group hf., sé skylt að gera yfirtökutilboð til annarra hluthafa í FL Group hf. Rökin eru einkum þau, að líta beri svo á að samstarf hafi verið með Baugi Group hf. og Eignarhaldsfélaginu Oddaflugi ehf., um skiptingu hlutafjár við hlutafjáraukingu í FL Group hf. sem kynnt var um miðjan nóvember," segir í yfirlýsingunni.

Þá segir einnig: "Eftir hlutafjáraukninguna fóru þessi tvö félög saman með 49,69% hlutafjár í FL Group hf. Í 37. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 33/2003, er miðað við að skylda til að gera yfirtökutilboð myndist þegar einn hluthafi, eða fleiri en einn hluthafi sem eru í samstarfi, eignist eða ráði yfir að minnsta kosti 40% hlutafjár í skráðu félagi. Í kjölfar birtingar á niðurstöðu Yfirtökunefndar hafa borist tilkynningar til Kauphallar Íslands um að félögin tvö hafi selt af hlutafé sínu í FL Group hf. til ótengdra aðila. Eftir þau viðskipti er sameiginlegur hlutur þeirra undir 40% af hlutafé í félaginu. Að gerðum þessum ráðstöfunum lítur Yfirtökunefnd svo á, að skylda til að gera yfirtökutilboð sé ekki lengur fyrir hendi."