Formaður yfirtökunefndar, Viðar Már Matthíasson, sagði í samtali við Viðskiptablaðið í að nefndin fylgdist náið, þessa dagana, með hræringum innan FL Group. Hann sagði þó úrskurð Fjármálaeftirlitsins frá seinasta ári þrengja talsvert að nefndinni. Yfirtökunefndin og FM voru ekki sammála því hvort yfirtökuskylda hefði myndast í FL Group í kjölfar hlutafjáraukningar haustið 2005.

Spurningar vakna óhjákvæmilega hvort að umskiptin á eignarhaldi í FL Group leggi yfirtökuskyldu, í samræmi við 37. grein laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti, á herðar stærsta hluthafans, Baugs Group, og náinna samstarfsaðila. Gera má ráð fyrir að málsaðilar líti þá til fyrri afgreiðslu yfirtökunefndar og Fjármálaeftirlitsins varðandi álitamála um yfirtökuskyldu, en óvíst hvort að hægt sé að heimfæra eldri niðurstöðu upp á núverandi stöðu. Í fyrravor úrskurðaði Fjármálaeftirlitið að þær miklu breytingar sem urðu á eignarhaldi og stjórn félagsins tæpu ári fyrr, í júní 2005, hefðu ekki leitt til yfirtökuskyldu, og hnekkti þannig niðurstöðu yfirtökunefndar í málinu.

Lesið meira í fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu.