Í stjórnarfrumvarpi sem lagt hefur verið fram á Alþingi er gert ráð fyrir að yfirtökuskylda í félagi skuli miðast við 33% í stað 40% eins og verið hefur. Núgildandi reglur voru settar með lögum árið 2005.

„Reynslan hefur leitt í ljóst að reglurnar eru erfiðar í framkvæmd þar sem þær eru ekki nægilega skýrar og hefur það leitt til ágreinings um túlkun þeirra," segir í athugasemdum við frumvarpið.

Þar segir að viðskiptaráðherra hafi skipað nefnd í nóvember 2007 til að bregðast við fyrrgreindri réttaróvissu. Hlutverk nefndarinnar var með öðrum orðum að fara yfir yfirtökureglur og gera eftir atvikum tillögur að breytingum á þeim.

„Eftir að nefndin skilaði af sér voru frumvarpsdrögin ásamt séráliti fulltrúa Fjármálaeftirlitsins send hagsmunaaðilum til umsagnar. Í frumvarpsdrögunum var ekki gert ráð fyrir að yfirtökumörkum laganna yrði breytt en í sérálitinu voru færð rök fyrir því að rétt væri að lækka yfirtökumörkin úr 40% í 33%," segir enn fremur í athugasemdum frumvarpsins.