Nokkur óánægja virðist vera komin upp meðal hluthafa í Magasin du Nord, ef marka má grein í danska viðskiptablaðinu Børsen í gær. Frá þessu er greint í Vegvísi Landsbankans. Eins og kunnugt er keyptu Baugur Group, Straumur og B2B Holding 69% af hlutafé Magasin (þ.e. Th. Wessel & Wett A/S) þann 12. nóvember síðastliðinn og gerðu yfirtökutilboð í hlutabréf annarra eigenda.

Yfirtökutilboðið hljóðaði upp á 162,5 danskar krónur á hlut, sem er 58% yfir meðalgengi bréfanna síðustu þrjá mánuði á undan og 48% yfir meðalgengi bréfanna síðustu sex mánuði á undan. "Yfirtökutilboðið þótti því fremur hagstætt og mælti þáverandi stjórn Magasin með því að aðrir hluthafar tækju tilboðinu. Magasin er stærsta stórverslun Danmerkur með yfir 2 milljarða danskra króna í veltu (24 ma.ISK). Reksturinn hefur hins vegar gengið mjög erfiðlega undanfarin ár og hefur verið tap af rekstri fyrirtækisins," segir í Vegvísi Landsbankans.

Mikill hagnaður vegna sölu fasteigna

Vegvísirinn bendir einnig á að í gögnum sem lögð voru fyrir hluthafafund þann 3. desember upplýstu íslensku kaupendurnir að þeir ætluðu sér að selja fasteignir Magasin í miðborg Kaupmannahafnar og í Lyngby og leigja aftur (sale-and-lease-back). Þannig var gert ráð fyrir að fasteignirnar yrðu fluttar yfir í sérstakt fasteignafélag þannig að Magasin gæti einbeitt sér að kjarnastarfsemi félagsins þ.e. verslunarrekstri.

Nú er komið í ljós að hagnaður Íslendinganna af sölu fasteignanna er um 150 milljónir danskra króna (1,7 ma.ISK) og telja einstakir hluthafar að þeir hafi ekki fengið fullnægjandi upplýsingar þegar fyrrverandi stjórn Magasin mælti með yfirtökutilboðinu. Børsen hefur eftir þekktum nafngreindum fjárfesti að miðað við hagnaðinn af fasteignasölunni hefði yfirtökutilboðið átt að vera 30% hærra en það var, þ.e. 212,5 danskar krónur á hlut í stað 162,5 kr. Félag fjárfesta (Dansk Aktionærforening) styður gagnrýni fjárfestisins. Fullyrt er að stöðugt fleiri fjárfestar í Magasin telji sig hafa verið leyndir upplýsingum þegar fyrrverandi stjórn Magasin mælti með að hluthafar tækju yfirtökutilboðinu segir í Vegvísi Landsbankans.

Fasteignaflétta

Í Børsen segir að fyrir sex mánuðum hafi fasteign Magasin í miðborg Kaupmannahafnar verið seld til Jyske Bank fyrir ríflega 1.000 milljónir danskra króna. Magasin upplýsti þá að um markaðsverð væri að ræða. Sölunni fylgdi hins vegar endurkaupsréttur fyrir Magasin, sem íslensku fjárfestarnir hafa nú nýtt sér og fundið nýja kaupendur sem voru tilbúnir til að greiða 20% hærra verð. Þess ber að geta að Jyske Bank seldi Íslendingunum 25,5% í Magasin í nóvember.

Byggt á Vegvísi Landsbankans.