Kögun gerði í dag yfirtökutilboð til annarra hluthafa Opin Kerfi Group en yfirtökuskylda myndaðist við kaup félagsins 14. október síðastliðinn þegar Kögun bætti við sig 35,77% eignarhlut í félaginu. Kögun átti fyrir 32,93% í OKG á þeim tíma og því var samanlagður eignarhlutur Kögunar í félaginu kominn yfir 40% mörkin sem yfirtökuskylda myndast í eða 68,7%.

Yfirtökutilboðið miðast við 26,8 kr. á hvern hlut í Opin Kerfi Group og mun Kögun greiða 50% af kaupverðinu með reiðufé en 50% verður greitt með eigin hlutum Kögunar sem verða gefnir út á genginu 42,8. Skiptagengið sem á þeim hluta kaupverðsins sem greiddur er með hlutabréfum er því 0,626168 hlutir í Kögun fyrir hvern hlut í Opin Kerfi Group.

Í Hálffimm fréttum KB banka kemur fram að tilboðið er sambærilegt því sem Kögun greiddi fyrir bréf OKG þegar yfirtökuskylda myndaðist 14. október síðastliðinn en í þeim viðskiptum var miðað við sama skiptagengi og sömu skiptingu á greiðslu kaupverðsins, þ.e. 50% reiðufé og 50% með bréfum í Kögun. Núverandi gengi á hlutabréfum Kögunar hefur þó hækkað nokkuð síðan þá eða um 9,11% miðað við lokagengi í Kauphöllinni í dag (46,2). Að mati Greiningardeildar er um að ræða gott tilboð en það jafngildir genginu 28,0 fyrir hlutabréf Opin Kerfi Group miðað við lokagengi Kögunar í dag. Til samanburðar hefur gengi í viðskiptum með hlutabréf OKG verið á bilinu 18,8 til 25,5 ? og er þá miðað lokagengi í viðskiptum með bréf félagsins frá ársbyrjun fram til 17. ágúst þegar Kögun keypti fyrst hlut í félaginu (35,77% hlut).