Verð yfirtökutilboðsins sem Samherji gerir í hluti í Eimskipafélagsins hefur verið ákveðið 175 krónur á hlut, sem er 13,5% lægra en 188,5 króna lokagengi bréfa félagsins í viðskiptum í kauphöllinni í gær.

Viðskiptablaðið sagði frá því því fyrir um hálfum mánuði að Samherji boðaði á ný yfirtökutilboð í skipafélagið en félagið hafði fengið undanþágu til að falla frá fyrra yfirtökutilboði í mars vegna breyttra efnahagsaðstæðna í kjölfar útbreiðslu kórónuveirufaraldursins.

Samherji segir verðið sem boðið er nú í hluti félagsins vera jafnhátt og hæsta verð sem Samherji Holding hefur greitt fyrir hluti í Eimskip á síðustu sex mánuðum áður en tilboðsskylda myndaðist og jafnframt hærra en dagslokagengi hluta í Eimskip á síðasta viðskiptadegi áður en að tilboðsskylda myndaðist.

Er tilboðsverðið enn fremur hærra en það tilboðsverð sem ráðgert var að bjóða hluthöfum er tilboðsskylda Samherja Holding myndaðist þann 10. mars 2020. Verðið er hins vegar það sama og félagið keypti 550 þúsund hluti, eða sem nemur 0,29% hluta í félaginu, á þann 21. október síðastliðinn.

Fara með 30% nú þegar en vilja halda félaginu í kauphöll

Í kjölfar tilgreindra kaupa fer Samherji Holding með atkvæðisrétt 56.630.000 hluta í Eimskip eða sem nemur 30,28% atkvæða í félaginu. Kaupin gera það að verkum að Samherja Holding er skylt að gera öðrum hluthöfum Eimskips yfirtökutilboð, þ.e. að bjóðast til að kaupa hlut þeirra í félaginu.

Tilboðið nær til allra hluta í Eimskip sem ekki eru í eigu Samherja Holding eða Eimskips sjálfs við lok viðskiptadags þann 9. nóvember nk. Hluthöfum sem skráðir eru í hlutaskrá Eimskips í lok viðskiptadags þann 9. nóvember nk. verður sent tilboðsyfirlitið, samþykkiseyðublað og svarsendingarumslag.

Gildistími yfirtökutilboðsins er frá kl. 9:00 þann 10. nóvember 2020 til kl. 17:00 þann 8. desember 2020. Eimskip er að meirihluta í eigu lífeyrissjóða og segir í tilkynningu félagsins að það vonist áfram að eiga gott samstarf við aðra hluthafa félagsins og það verði áfram skráð á hlutabréfamarkað.