Þó enn sé óvíst hversu mikil áhrif ótímabundið yfirvinnubann flugumferðarstjóra mun hafa á almenna flugumferð hefur það þegar haft einhverja truflun í för með sér, þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Yfirvinnubannið tók gildi 6. apríl sl. og gildir í öllu landinu.

Sigurjón Jónasson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra, segir samningaviðræður hafa staðið yfir frá í október á síðasta ári. Kjaraviðræðurnar hafa ekki skilað árangri og orðið fullreynt eftir síðasta sáttarfund hjá ríkissáttarsemjara að mati flugumferðarstjóra.

Einhugur var í félaginu um aðgerðirnar og tæplega 95% þeirra sem kusu samþykktu yfirvinnubannið. Sigurjón segir yfirvinnubann helsta vopnið sem félagið geti gripið til, sem vonandi verði til þess að viðsemjendur flugumferðarstjóra séu a.m.k. tilbúnir að leggja við hlustir.

Boðað hefur verið til sáttafundar fyrir hádegi á morgun, miðvikudag.

Reykjavíkurflugvöllur var lokaður í nótt fyrir almennri flugumferð en vakt var þó til staðar til að sinna sjúkraflugi eða neyðartilfellum.