Ummæli Vladímírs Pútíns um að Rússar neyðist til þess að miða kjarnorkuvopnum sínum að skotmörkum í Evrópu á ný hafa verið fordæmd víða. Eflaust mun þau bera á góma þegar þeir George Bush, Bandaríkjaforseti, funda í tengslum við ráðstefnu átta helstu iðnríkja heims.

Það er ekki nema von að stjórnmálaskýrendur og álitsgjafar líki ástandinu í samskiptum bandarískra og rússneskra stjórnvalda við þann tíma sem kalt stríð geisaði. Spennan í samskiptum ríkjanna hefur farið stigvaxandi undanfarin misseri og náði nýjum hæðum vegna ummæla Vladímír Pútíns, Rússlandsforseta, um að rússneskum kjarnorkueldflaugum yrði á ný beint að skotmörkum í Evrópu, yrði ekki fallið frá þeim áformum Bandaríkjamanna að koma sér upp eldflaugavarnakerfi í Evrópu.

Það skal engan furða að ummælin hafi uppskorið fordæmingu þungavigtarmanna í stjórnmálum á Vesturlöndum og ljóst er að þegar fundum þeirra Pútíns og George Bush, Bandaríkjaforseta, ber saman á ráðstefnu leiðtoga átta helstu iðnríkja heims í Þýskalandi í vikunni mun hann markast af þeirri staðreynd að samband ríkjanna hefur ekki verið jafn þrungið spennu síðan á tímum kalda stríðsins. Önnur deilumál, eins og ólík afstaða til framtíðarskipunar mála í Kosovo, kjarnorkuáform klerkastjórnarinnar í Íran og vaxandi gagnrýni ráðamanna í Washington á ástand mannréttinda og lýðræðis í Rússlandi, gefa tilefni til þess að samband ríkjanna kunni að versna enn frekar.

Tíu gagneldflaugar og hið mikla vopnabúr Rússa
Bandarísk stjórnvöld hafa ítrekað vísað þeirri ásökun á bug að eldflaugavarnakerfi þeirra sé beint gegn Rússum. Það miðist við að granda hugsanlegum eldflaugaárásum útlagaríkja á borð við Íran og Norður-Kóreu. Máli sínu til stuðnings benda talsmenn Bandaríkjastjórnar á að stjórnvöld í Kreml geti vart haldið því fram að þeim standi ógn af eldflaugavarnakerfi í Evrópu sem samanstendur af tíu gagneldflaugum í Póllandi og radarstöð í Tékklandi: Slíkt kerfi má sín lítils gegn voldugu kjarnorkueldflaugavopnabúri Rússa. Til þess að afvopna tortryggnina hafa bandarískir ráðamenn lýst sig viljuga til þess að veita stjórnvöldum í Kreml upplýsingar um eðli kerfisins. Fram til þessa hafa þau tilboð litlu skilað og afstaða Rússa harðnar. Þeir hafa hótað að segja upp tveimur afvopnunarsamningum til þess að auka svigrúm sitt til að bregðast við uppsetningu eldflaugavarnarkerfisins og boða að hún geti leitt til nýs vígbúnaðarkapphlaups.

Stjórnmálaskýrendur benda á að einörð afstaða stjórnvalda í Kreml sé til marks um aukið sjálfstraust þeirra í alþjóðamálum en það byggist á efnahagslegri uppbyggingu í landinu í krafti hins háa orkuverðs undanfarin ár. Þetta sjálfstraust endurspeglast meðal annars í því að teikn eru á lofti um að ráðamenn í Moskvu telji sig í minni mæli undir hælnum á Vesturlöndum en á tíunda áratugnum, þegar Atlantshafsbandalagið (NATO) var stækkað til austurs án þess að þau fengju við því spornað. Í krafti þessa telja þau afar brýnt að tryggja áhrif sín á nágrannalöndum sem hugsanlega gætu fengið aðild að NATO í framtíðinni og hafa meðal annars notað mikilvægi rússnesks orkuútflutnings fyrir ríki Evrópu til þess að reka fleyg í samstöðu þeirra gegn slíkum tilburðum. Það blasir við að hörð mótmæli þeirra gegn eldflaugavarnarkerfi í Póllandi og Tékklandi eru liður í þessari stefnu, enda fæst varla séð hvernig slíkt kerfi ógni almennum hernaðarhagsmunum Rússa.

Stefnan kann að grafa undan stöðu Rússa
Vissulega er staða Rússlands sterk gagnvart Evrópu um þessar mundir en hinsvegar getur þessi stefna grafið á endanum undan áhuga bæði stjórnvalda álfunnar og Bandaríkjamanna á samstarfi við Rússa og leitt til einangrunar þeirra á alþjóðavettvangi. Þrátt fyrir að nýleg varnaðarorð Pútíns um þá ógn sem alþjóðakerfinu stafi af tilvist aðeins eins ofurveldis kunni að eiga hljómgrunn meðal sumra stjórnmálamanna í vesturhluta Evrópu blasir við að núverandi stefna Rússlandsstjórnar á alþjóðavettvangi hlýtur að gera það að verkum að áhugi þeirra á eflingu Atlantshafstengslanna eflist fremur en hitt. Yfirlýsingar þess efnis að bandarískt eldflaugakerfi í Austur-Evrópu hljóti að kalla á aðgerðir sem miðast við að bregðast við nýju valdajafnvægi í álfunni eru líklegar til að falla í grýttan jarðveg í Evrópu. Varla verður séð að uppsetning slíks kerfis sé til marks um breytt valdajafnvægi - það er einungis staðfesting á því valdahlutfalli í alþjóðamálum sem nú ríkir - og varla hafa ríki Evrópu mikinn áhuga á að breyta því.