Ný stjórn Vinnslustöðvarinnar var sjálfkjörin á hluthafafundi á miðvikudaginn sem einungis stóð yfir í átta mínútur. Í tilkynningu sem barst frá Guðmundi Kristjánssyni og Hjálmari Kristjánssyni, eigendum Brims hf., sem á tæplega 33% hluti í Vinnslustöðinni, kom fram að þeir hefðu ákveðið að draga framboð sitt til stjórnarsetu í Vinnslustöðinni til baka. Skipan stjórnar er því óbreytt frá því sem var í endurteknu stjórnarkjöri í félaginu á aðalfundi þess í júlí sl. Það er álit Brims að hið fyrra stjórnarkjör í júlí hafi verið löglegt og eigi að standa.

Vegna þessa telur Brim að ekki hafi verið boðað til fundarins með réttum hætti enda hafi sú stjórn sem sat fyrir aðalfund félagsins þann 6. júlí sl. ekki heimild til að boða til hluthafafunda. Þá telur Brim ólögmætt að halda hluthafafund félaginu og kjósa nýja stjórn á meðan hlutafélagaskrá hefur lögmæti stjórnarkjörsins á aðalfundi félagsins þann 6. júlí sl. til umfjöllunar.

Sér fram á málaferli

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, segir að óvissu um réttmæti stjórnarinnar hafi verið eytt með kosningunni og því standi ekki annað til en að halda áfram almennum störfum. „Af fréttatilkynningunni frá Brim að dæma þá mun þetta hafa einhver málaferli í för með sér, eða við munum allavega fá venjubundnar hótanir þess efnis,“ segir Sigurgeir. Á dögunum bárust fréttir þess efnis að ráðherra hefði fallist á endurupptöku ákvörðunar frá 19. apríl sl. um að hafna beiðni Brims um að tilnefna rannsóknarmann til að rannsaka tiltekna þætti í starfsemi Vinnslustöðvarinnar.

Venjubundin ófrægingarherferð

Sigurgeir segir lítið að frétta af þeim málum. „Eins og ég hef skýrt frá áður hafa þeir fjórum sinnum lagt fram beiðnir um rannsóknarmenn, án þess þó að það hafi nokkurn tímann verið samþykkt. Þá hafa tvö mismunandi endurskoðunarfélög séð um okkar mál án þess að nokkuð hafi komið fram sem gefi tilefni til athugasemda. Þetta er í raun bara venjubundin ófrægingarherferð sem Guðmundur Kristjánsson stendur fyrir. Það hefur aldrei verið grundvöllur fyrir ásökunum hans. Ein rannsóknarbeiðnin snerist til að mynda um það hvernig félaginu hefði verið skipt upp aftur þegar Vinnslustöðinni og Ufsaberg útgerð var skipt upp. Þá samþykkti stjórnin beiðni þeirra og fékk KPMG til þess að fara yfir allt sem sneri að uppskiptunum. KPMG komst svo að því að þar hefði allt verið gert rétt og eðlilega. Samt óskaði hann eftir rannsóknarbeiðni. Þetta snýst bara um að ásaka nógu mikið og endurtekið og vonast til þess aðfólk trúi því á endanum.“