Yfirvöld á Eyjunni Mön komu fyrir breska þingnefnd í gær og sökuðu bresk stjórnvöld um að hafa fengið dótturfélag Kaupthing Singer & Friedlander, KSF, á Mön til að flytja 550 milljónir punda úr dótturfélaginu í höfuðstöðvarnar í Lundúnum. Bresk yfirvöld hafi svo fryst þessar eignir í október þegar KSF hafi verið settur í greiðslustöðvun. Þetta kemur fram í frétt The Times þar sem einnig er fjallað um rannsókn þingnefndarinnar á ásökunum fyrrum stjórnanda Singer & Friedlander um að hann hafi varað breska fjármálaeftirlitið við að leyfa yfirtöku Kaupþings á breska bankanum.

Leitaði til FSA í maí vegna vanda á Íslandi

Yfirmaður fjármálaeftirlits á Mön sagði þingnefndinni að hann hefði í mars í fyrra farið að hafa áhyggjur af mikilli áhættu KSF gagnvart vanda bankakerfisins á Íslandi. Í maí hefði hann reynt að draga úr þessari áhættu og leitað aðstoðar breska fjármálaeftirlitsins, FSA.

Hann sagðist hafa samþykkt flutning á 550 milljónum punda, sem var helmingur eigna dótturfélagsins, til höfuðstöðvanna vegna þess að hann hefði fengið staðfestingu frá FSA um að peningarnir væru öruggari í Lundúnum.

Eignirnar hefðu hins vegar verið frystar í KSF í október sl. en þar hefðu þúsundir breskra sparifjáreigenda átt inneignir. Þar með hefðu 8.000 sparifjáreigendur á Mön tapað fé, en bresk stjórnvöld hefðu upphaflega neitað að tryggja sparnað innistæðueigendanna á Mön.