*

föstudagur, 15. nóvember 2019
Erlent 4. júlí 2018 15:19

Yfirvöld mýkjast gagnvart bönkunum

Seðlabanki Bandaríkjanna býður bönkum sér samning við álagsprófun eftir að Donald Trump tók við sem forseti.

Ritstjórn
Bandaríski seðlabankinn hefur framkvæmt árleg álagspróf á bankakerfinu frá hruni.
epa

Seðlabanki Bandaríkjanna hefur boðið Goldman Sachs og Morgan Stanley sérstakan samning til að sleppa við falleinkunn í álagsprófi bankans, án þess að þurfa að skera áformaðar greiðslur til hluthafa jafn mikið niður og þeir hefðu annars þurft að gera til að standast prófið. Viðskiptablaðið sagði nýlega frá álagsprófunum, og því að bankarnir tveir hefðu komið verst út úr þeim.

Samkvæmt Wall Street Journal tjáðu starfsmenn seðlabankans bönkunum Goldman Sachs og Morgan Stanley þann 21. júní síðastliðinn, að þeir væru í þann mund að fá falleinkunn í árlegu álagsprófi bankans. Til að standast prófið þyrftu þeir að lækka áformaðar greiðslur til hluthafa upp á 16 milljarða dollara, um 1700 milljarða íslenskra króna, um helming.

Seðlabankinn bauð þeim hinsvegar aðra leið út úr vandanum: ef þeir samþykktu að greiða ekki meira út en áður, um 13 milljarða dollara, fengju þeir að standast prófið, þó með „skilyrta einkunn”. Ef þeir samþykktu ekki tilboðið þyrftu þeir að taka prófið aftur og skera arðgreiðslur, eins og áður sagði, niður í 8 milljarða dollara.

Þetta hefur meðal annars í för með sér að árangurstengdar greiðslur Lloyds Blankfein, framkvæmdastjóra Goldman Sachs, og James Gorman, framkvæmdastjóra Morgan Stanley, verða hærri en ella.

Þetta er fyrsti slíki samningur sem bönkum stendur til boða á þeim 8 árum sem seðlabankinn hefur framkvæmt álagsprófin, og markar stefnubreytingu í átt að mýkri meðhöndlun yfirvalda á bankakerfinu, en slíkrar stefnubreytingar hefur verið beðið síðan Trump tók við sem forseti. „Nýir dómarar, nýjar reglur“, sagði ráðgjafafyrirtækið Pwc.