Svein Harald Øygard, nýskipaður seðlabankastjóri tímabundið, segist ekki muna nákvæmlega hvenær haft var samband við hann og hann beðinn um að taka starfið að sér.

Þetta kom fram á blaðamannafundi Øygard í morgun.

Hann sagði að aðilar frá ríkisstjórninni hefðu haft samband við sig og beðið hann um að taka starfið að sér.

Svein Harald hefur frá árinu 1995 starfað fyrir ráðgjafarfyrirtækið McKinsey&Company. Hann sagði á fundinum í morgun að hann hefði þegar sagt upp störfum hjá fyrirtækinu og uppsögn hans hefði tekið gildi frá kl. 9 í morgun.

Þá sagðist Øygard aðspurður aldrei hafa hitt Davíð Oddsson, fyrrverandi formann bankastjórnar bankans. Aðspurður hvort hann þyrfti ekki að hitta forvera sinn í starfi sagði Øygard að lögð væri áhersla á að horfa fram á veginn og því teldi hann ekki ástæðu til að hitta Davíð. Hann sagði að starfsfólk bankans væri vel inn í starfssemi bankans.

Aðspurður um tímabundna ráðningu sína sagði Øygard að hann myndi starfa með langtímamarkmið í huga óháð skipunartímabili sínu.