Rætt er um að Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, stígi til hliðar í desember eða í byrjun næsta árs og að Umberto Bossi, formaður sambandsflokks hans, Norðursambandsins, muni setjast í stól forsætisráðherra Ítalíu fram að þingkosningum í mars.

Þetta fullyrðir ítalska dagblaðið La Repubblica og bendir á að um lendingu stjórnarflokkanna að ræða í viðleitni þeirra til að koma skikkan á fjárhagsstöðu Ítalíu.

Breska ríkisútvarpið, BBC, segir talsmenn Norðursambandsins neita fréttum í þessa átt. Þeir segi tilgang þeirra þann að grafa undan forsætisráðherranum fyrir fund þjóðarleiðtoga aðildarríkja Evrópusambandsins um skuldakreppuna á evrusvæðinu í dag.

Greint var frá því um síðustu helgi að Berlusconi hafi fundað með Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, og Nicolas Sarkozy, forseta Frakklands, um fjárhagsstöðu Ítalíu. Þar hafi verið þrýst á að hann grípi til aðgerða til að koma í veg fyrir að landið dragist inn í skuldasvelg með Grikklandi, Spáni og fleiri löndum.