Kaupstaður fasteignasala hefur ráðið Ýlfu Proppé Einarsdóttur sem sérfræðing varðandi lántöku til kaupenda fasteigna. Ýlfa er vottaður fjármálaráðgjafi frá samtökum fjármálafyrirtækja (SSF) og hefur mikla reynslu úr bankageiranum.

Hún starfaði áður hjá Íslandsbanka sem yfirmaður einstaklingssviðs í útibúi bankans á Höfðabakka. Ýlfa hefur einnig starfað hjá BYR, þar sem hún var þjónustustjóri og síðar útibússtjóri, og hjá SPRON, þar sem hún var m.a. þjónustustjóri.

Ýlfa mun leiðbeina viðskiptavinum Kaupstaðs varðandi lántöku við fasteignakaup. ,,Kaupendur eiga þess kost að fá leiðbeiningar um möguleg lán, svo sem út frá greiðslugetu og lánshlutfalli og hvað þarf til að standast greiðslumat og gögn þar að lútandi. Þá býðst þeim að fá samantekt yfir þá lánveitendur á húsnæðislánamarkaði sem til greina koma miðað við kaupskilmála og greiðslubyrði ef til lántöku kemur sem og breytingar á henni ef verðlag og vaxtaumhverfi breytist. Þetta er mjög mikilvægt fyrir kaupendur. Einnig hefur þessi aðstoð við kaupendur mikið að segja fyrir seljendur þar sem við getum greint hverjir eru líklegir til að standast greiðslumat," er haft eftir Ýlfu í fréttatilkynningu.

,,Með greiningu getum við sagt að meiri líkur verði á því að kaupendur fái fjármögnun hjá þeim lánastofnunum sem þeir leita til. Kaupendur þurfa alltaf að fara í gegnum greiðslumat hjá þeirri lánastofnun sem þeir sækja um lánið hjá til að fá fjárveitingu. Við trúum því að með þessu ætti ferlið að styttast og færri falli á greiðslumati og því góður kostur fyrir seljendur. Auðvitað munum við einnig aðstoða seljendur eins vel og við getum með þeirra fjármál. Ég mun sjá um þessar leiðbeiningar til kaupenda og seljenda fyrir hönd Kaupstaðs," segir Ýlfa ennfremur.

,,Við erum afar ánægð að fá Ýlfu til liðs við Kaupstað. Hún hefur gríðarlega mikla reynslu úr fjármála- og bankageiranum sem mun nýtast okkur og viðskiptavinum okkar mjög vel. Við erum líklega fyrsta fasteignasalan hér á landi til að ráða í stöðu fjármálaráðgjafa og bjóða upp á þessa þjónustu," segir Einar G. Harðarson, löggiltur fasteignasali og eigandi Kaupstaðs sem er til húsa að Nóatúni 17.