*

föstudagur, 6. ágúst 2021
Innlent 17. janúar 2017 09:59

Ylströnd við Egilsstaði

Eigendur Jarðbaðanna í Mývatnssveit og Bláa lónsins meðal þeirra sem koma að uppbyggingu 500 milljóna ylstrandar við Urriðavatn.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Eigendur tveggja helstu heitavatnsferðamannastaða landsins, það er Jarðbaðanna í Mývatnssveit og Bláa lónsins, ætla að opna ylströnd við Urriðavatn, fjóra kílómetra fyrir utan Egilsstaði árið 2019.

Stærsti hluthafinn verður Jarðböðin Mývatnssveit ehf. en aðrir hluthafar eru ellefu einstaklingar og fyrirtæki á Austurlandi að því er fram kemur í frétt Vísis um málið.

Steingrímur og Grímur stjórnarformenn

Formaður stjórnar félagsins sem að verkefninu standa er Steingrímur Birgisson, forstjóri Bílaleigu Akureyrar og stjórnarformaður Jarðbaðanna. 

Varaformaður stjórnar verður svo Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins og formaður Samtaka ferðaþjónustunnar. Viðskiptablaðið veitti honum um áramótin viðurkenningu sem viðskiptamaður ársins 2016.

„Ég er mjög spenntur fyrir þessari framkvæmd,“ segir Ívar Ingimarsson, einn aðstandanda verkefnisins, en með honum eru meðal annars Hilmar Gunnlaugsson lögmaður á Lögmannsstofunni Sókn á Egilsstöðum og Hafliði H. Hafliðason.

„Ég held að ylströndin eigi eftir að hafa mikið að segja með áframhaldandi vöxt ferðaþjónustu hér á svæðinu – en það hefur lengi vantað segul; stað sem hægt er að ganga að sumar, vetur, vor og haust – sama hvernig viðrar.“

Fjárfest fyrir 500 milljónir

Búið er að semja við landeigandann um lóð, deiliskipulag fyrir verkefnið hefur verið samþykkt auk þess að rammasamningur hefur verið gerður við Hitaveitu Egilsstaða og Fella ehf.

 

Verkefnið hefur verið fjármagnað að fullu, en áætlanir gera ráð fyrir að fjárfestingin verði 500 milljónir króna, en þar af hefur fengist skuldbindandi loforð fyrir um 280 milljón króna hlutafé.