„Þetta er búið að standa til lengi,“ segir Máni Pétursson, útvarpsmaður og annar helmingur Harmageddon, en hann hefur ásamt samstarfsfélaga sínum, Frosta Logasyni, stofnað félagið Harmageddon ehf. utan um ýmis verkefni þeirra félaga. Eins og flestir vita þá eru þeir með útvarpsþáttinn Harmageddon á X-inu 977 alla virka daga.

„Við erum að færa hann meira inn í myndmál og þetta er hluti af því. Við förum að framleiða meira efni og svo hef ég einnig rekið umboðsskrifstofu. Við erum búnir að færa hana þangað líka, undir Harmageddon ehf.,“ segir Máni. Hann segir engar breytingar fram undan á högum hans og Frosta hjá 365 þar sem þeir eru launamenn. „Við stefnum á að vera þar áfram enda átt gott samstarf við það fyrirtæki,“ segir Máni. Hann segir verkefni á borð við bókaútgáfu eiga mögulega eftir að heyra undir hið nýja félag.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .