Sagt er frá stöðu efnahagsmála á Íslandi í breska viðskiptablaðinu The Business. Í greininni er fjallað um aukna verðbólgu og lækkun íslensku krónunnar sem standi sig næst verst allra gjaldmiðla í heiminum, næst á eftir zimbabwanska dollarnum.

Þá er sagt frá því að Seðlabankinn hafi hækkað vexti 14 sinnum frá árinu 2004 en að auðvelt aðgengi að erlendu fjármagni hafi dregið úr slagkrafti aðgerðanna. Hins vegar hafi hitnað í kolunum á fimmtudag þegar vaxtahækkun Seðlabankans var hærri en búist var við.

Verðbólga er nú meira en þrisvar sinnum hærri en verðbólguviðmið Seðlabankans segja til um og kostnaður við erlenda lántöku hefur aukist þar sem aðrir seðlabankar berjast við verðbólgu með því að hækka vexti sína. Þetta hefur nú áhrif á íslenskt efnahagslíf. Í greininni segir ennfremur að Kauphöll Íslands sé sú minnsta í heimi, með aðeins 24 skráð félög.

Fjallað er um íslenska lífeyrissjóðskerfið á jákvæðum nótum, að almenningur sé skyldaður til að greiða 10% launa sinna í lífeyrissjóði og að kerfið hafi létt undir með ríkissjóði þar sem meginhluti lífeyrisgreiðslna komi frá lífeyrissjóðunum.

Ennfremur hafi frjáls lífeyrissparnaður aukist til muna síðasta áratuginn og að hrein eign íslensku lífeyrissjóðanna sé 1.345 milljarðar íslenskra króna eða sem nemur 130% af vergri landsframleiðslu. Aðeins Sviss og Holland standa betur að vígi að þessu leyti.

Einnig segir í greininni að sé tekið tillit til fremur lágs meðalaldurs íslensku þjóðarinnar og fremur hás eftirlaunaaldurs þurfi þjóðin því ekki að hafa áhyggjur af lífeyrissjóðsmálum eins og meginþorri Evrópuþjóða. Af þessu megi ýmislegt læra.