Þróun danska húsnæðiskerfisins seinasta áratuginn hefur haft neikvæðar afleiðingar á danskt húsnæðiskerfi. Þetta er mat danskra sérfræðinga sem héldu í dag fyrirlestur um tillögur verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála. Fyrir vikið þurfi að sýna sérstaka aðgát ætli Íslendingar að innleiða hið danska kerfi.

Verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála kynnti í maí tillögur sínar. Tillögurnar eru að fyrirmynd danska húsnæðiskerfisins og eru margvíslegar. Meðal tillagna er að stofnuð verði sérstök lánafélög sem hafi það eina hlutverk að veita íbúðarlán. Félögunum verður skylt að veita lán á sömu kjörum um allt land.

Einnig er lagt til að vaxtabætur og húsaleigubætur verði sameinaðar og fjármagnstekjuskattur einstaklinga vegna leigu verði lækkaður úr 20% í 10%. Eitt helsta markmiðið er að tryggja öllum aðgengi að húsnæði á viðráðanlegu verði.

Vítin eru til að varast þau

Fáar þjóðir í heiminum eru eins skuldsettar og Danir þegar kemur að íbúðarhúsnæði. Er það meðal annars vegna þess að Dönum bjóðast lán sem eru afborgunarlaus stóran hluta lánstímans.

VB Sjónvarp tók Soffíu Eydís Björgvinsdóttur formann verkefnisstjórnarinnar tali og spurði út í hugmyndir um breytingu á íslenska húsnæðiskerfinu.