Hlutabréf bæði hækkuðu og lækkuðu í Asíu í dag en helstu fréttir að austan eru að byggingar- og framkvæmdarrisinn Urban Corp. í Japan óskaði í dag eftir gjaldþrotaskiptum sem hafði mjög neikvæð áhrif á markaði í Asíu að sögn Bloomberg fréttaveitunnar.

Þá gaf bandaríski fjárfestingabankinn Merrill Lynch út spá þar sem talið er að lausafjárkrísunni sé hvergi nær lokið og var mikið fjallað um skýrsluna í fjölmiðlum í Asíu í dag.

MSCI Kyrrahafs vísitalan lækkaði um 0,4%. Þetta er þriðji dagurinn í röð sem vísitalan lækkar en hún hefur ekki lækkað jafn mikið á þremur dögum síðan í september árið 2006.

Í Japan lækkaði Nikkei vísitalan um 0,5% og í Kína lækkaði CSI 300 vísitalan um 3,2% sem hafði mest áhrif á lækkun MSCI Kyrrahafsvísitöluna.

Í Hong Kong hækkaði Hang Seng vísitalan hins vegar um 0,5%, í Singapúr hækkaði Straits vísitalan um 0,3% og í Ástralíu hækkaði S&P 200 vísitalan um 0,6%.