Oddur Sturluson gekk á dögunum til liðs við ráðninga- og ráðgjafafyrirtækið TeqHire. Hann hefur starfað innan sprotasenunnar síðustu ár, nú síðast hjá Icelandic Startups. Auk þess að starfa fyrir TeqHire situr Oddur í stjórn íslenskra sprotafyrirtækja og er framkvæmdastjóri Lemonsqueeze á Íslandi sem er danskt/bandarískt fyrirtæki sem hjálpar sprotafyrirtækjum að ná fótfestu á bandarískum markaði.

Spurður hvað hafi orðið til þess að hann réð sig til TeqHire segir Oddur: „Mig langaði að nýta þá þekkingu sem ég hef verið að byggja upp undanfarin ár til þess að hjálpa fyrirtækjum sem eru komin að fjármögnunarfasa og eru núna að byggja upp teymi.“ Hann segist mjög stoltur af þeirri vinnu sem Icelandic Startups hefur unnið og þeim árangri sem sprotaumhverfið hefur náð á undanförnum árum. Segir hann að mikið hafi verið gert til þess að hjálpa frumkvöðlum og sprotafyrirtækjum við vöruþróun, hugmyndavinnu og við leit að fjármögnun. „Núna langar mig að leggja mitt af mörkum við að hjálpa þessum aðilum við það sem tekur við eftir fjármögnun, þegar þarf að stækka teymið. Á þessum tíma er oft mikið álag á stjórnendum fyrirtækjanna og það er á þessum fasa sem margt getur farið úrskeiðis.“

Oddur er trúlofaður Fjólu Þrastardóttur hugbúnaðarsérfræðingi og munu þau gifta sig eftir tæpan mánuð. Eru þau verðandi hjónin búsett í Hlíðunum. Spurður hvað hann gerir utan vinnu segir Oddur: „Þegar ég er ekki að vinna er ég annaðhvort í eldhúsinu eða að veiða.“ Oddur segist fara tvisvar til þrisvar í veiði yfir sumarið en segist ekki ná að fara nærri eins oft og hann hefði viljað. Hann segist einnig ætla að láta vaða í það að byrja í golfi þótt hann segist varla hafa tíma til þess. „Það tala allir svo vel um það og ég er að fara í fyrsta tímann minn á sunnudaginn.“

Nánar er rætt við Odd í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð .