Ýmsir hafa spáð því að nýbyrjað ár kunni að marka viðsnúning í vinsældum hávaxtamynta, segir greiningardeild Glitnis, sem segir að eitt af einkennum síðasta árs á fjármálamörkuðum hafi verið stóraukinn áhugi fjárfesta á hávaxtamyntum víðs vegar um heiminn, þar á meðal íslensku krónunni.

?Áhugi alþjóðlegra fjárfesta á krónuvöxtum hefur til dæmis birst í útgáfu krónubréfa erlendis, háum eignarhlut þeirra á ríkisbréfum (45% í októberlok) og sókn þeirra inn á hérlendan peningamarkað,? segir greiningardeildin.

?Ávöxtun í þeim [hávaxtamyntum] er að sönnu áhættusöm, og nokkurra daga gengishreyfingar geta þurrkað út ábata af vaxtamun undangenginna mánaða eða jafnvel ára. Einnig eru horfur á hækkandi vöxtum í þeim myntum þar sem vaxtastig hefur verið hvað lægst,? segir greiningardeildin.

?Gagnvart evru hefur [ungverska] forintan til að mynda veikst um 0,9%, tyrkneska líran um 0,4%, suður-afríski randinn um 1,9% og nýsjálenski dollarinn um 1,4%.  Kúfurinn af þessari lækkun átti sér stað undir lok síðustu viku. Á sama tíma hefur krónan styrkst um 1,9% gagnvart evru og þróunin hér á landi því með öðrum hætti en í hinum hávaxtamyntunum.

Þó ber á það að líta að krónan veiktist nokkuð á föstudag þrátt fyrir tilkynningu um krónubréfaútgáfu. Það sem af er degi hefur verðgildi krónu hins vegar haldist óbreytt. Þróunin það sem af er ári merkir það þó ekki að fylgni krónunnar við aðrar hávaxtamyntir sé rofin því eitt er fylgni og annað naglfast samband,? segir greiningardeildin.