Búist er við því að auglýsingatekjur netveitunnar YouTube muni nema 5,6 milljörðum dala á þessu ári, jafnvirði 656 milljarða íslenskra króna. Gangi það eftir þá verður þetta rúmlega 50% meiri auglýsingatekjur en í fyrra. Aukningin kemur í kjölfar mikillar aukningar á notkun YouTube í handheldum og nettengdum búnaði á borð við snjallsíma og spjaldtölvur.

Breska dagblaðið Financial Times vitnar til skýrslu greiningarfyrirtækisins eMarketer, sem segir vísbendingar um að auglýsendur reyna í meiri mæli en áður að höfða til yngri aldurshópa sem hafi lokað augunum fyrir hefðbundnum sjónvarpsútsendingum og kosið frekar að nýta sér nýja tækni.

Það er bandaríski netrisinn Google sem á YouTube en fyrirtækið keypti fyrirtækið árið 2006 fyrir 1,65 milljarða dala, jafnvirði tæpra 200 milljarða íslenskra króna. Notendur eru um ein milljón talsins. Fyrirtækið er risi í auglýsingageiranum og sogar til sín um 20% af öllum auglýsingatekjum á netinu í Bandaríkjunum.