Lífskjararannsókn Hagstofunnar sýnir að litlar breytingar eru á dreifingu ráðstöfunartekna á milli áranna 2014 og 2015.

Gini stuðullinn hækkar eilítið

Hækkaði Gini-stuðullinn lítilega á milli ára, fór úr 22,7 í 23,6, en þar sem þessi breyting er innan vikmarka er ekki hægt að draga þá ályktun að ójöfnuður hafi aukist milli ára.

Gini stuðullinn mælir jöfnuð í samfélaginu þannig að við 0 eru allir með sömu tekjur, en við 100 er alger ójöfnuður, það er allar tekjur eða neysla er á höndum eins og allir hinir hafi engar.

Yngsta fólkið dregst aftur úr

Hlutfall þeirra sem eru með minna en 60% af miðgildi ráðstöfunartekna, svokallað lágtekjuhlutfall, mældist hærra árið 2015 en 2014. Á Íslandi sést skýrt samband á milli aldurs og ráðstöfunartekna, þar sem tekjurnar hækka með aldri þar til fólk fer á eftirlaun.

Lægsta miðgildi ráðstöfunartekna voru hjá fólki yfir 64 ára aldri, en næst lægstar á aldursbilinu 25-34 en hækka svo þar á eftir með hverju aldursbili. Sést að tvö elstu aldursbilin, það tekjuhæsta á aldrinum 55-64 ára og áðurnefnt tekjulægsta þar á eftir, hafa bætt stöðu sína mest meðan yngsta aldurstímabilið, 25-34 ára hefur dregist aftur úr.

Fór aldursbilið 55-64 ára úr 114,9% árið 2004 af miðgildi ráðstöfunartekna í samfélaginu í 121,3% árið 2015. Þeir sem voru eldri en 64 ára fóru úr 79,5% í 89,9% á sama tíma. En yngsta aldurstímabilið fór úr 101,9% niður í 95,3%.