Bankakerfið hefði að öllum líkindum ofvaxið þótt hér hefði verið evra enda óx bankakerfið mikið í löndum á borð við Írland og gömlu austantjaldsríkin.

Þetta sagði Yngvi Örn Kristinsson, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans á fundi Viðskiptaráðs og fastanefndar Evrópusambandsins gagnvart Íslandi og Noregi um sjálfstæðar myntir í fjármálakreppu.

Yngvi Örn sagði að evran hefði þó kallað fram aga í ríkisfjármálum, aga sem ekki hefði verið til staðar í marga áratugi. Hún hefði jafnframt komið í veg fyrir vaxandi verðbólgu frá árinu 2006.

„Verðbólgunni var í raun sópað undir teppi með hækkun innlendra vaxta,“ sagði Yngvi Örn.

Hann sagði bankana hafa ofnotað dýrmæta auðlind, þ.e. gott lánshæfismat íslenska ríkisins og eins bankanna sjálfra til að vaxa og í raun hefðu þeir vaxið of hratt. Hann sagði að með mikilli skuldabréfaútgáfu hefðu bankarnir sjálfir sett sig í nokkurs konar gildru endurfjármögnunar þar sem skuldabréf eru í flestum tilfellum gefin út til 3-5 ára og því mikil þörf á endurfjármögnun með reglulegu og stuttu millibili.

Hann sagði að bönkunum hefði verið leyft að vaxa Íslandi yfir höfuð þó öllum væri ljóst að Seðlabankinn gæti ekki veitt þeim fyrirgreiðslu í erlendum gjaldmiðli og ekki veitt þeim fyrirgreiðslu. Hann tók þó fram að þetta væri ekki séríslenskt vandamál heldur væru bankar almennt að verða alþjóðlegri og stærri.