Það er ólíklegt að Seðlabanki Evrópu hefði ekki orðið við óskum Glitnis um lausafjárfyrirgreiðslu og enn ólíklegra að bankinn hefði þjóðnýtt Glitni.

Þetta sagði Yngvi Örn Kristinsson, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans á fundi Viðskiptaráðs og fastanefndar Evrópusambandsins gagnvart Íslandi og Noregi um sjálfstæðar myntir í fjármálakreppu.

Hann sagði að jafnvel þótt Glitnir hefði verið þjóðnýttur væri ólíklegt að það hefði haft jafn gríðarleg áhrif á landshæfi lýðveldisins og hinna bankanna hefði Ísland verið aðili að evrusvæðinu.

Þannig hefði líklega gefist tími fyrir bankana til að losa sig við eignir og eins að færa starfssemi sína erlendis í dótturfélög.

Hann sagði að þó svo að Ísland hefði verið hluti af evrusvæðinu í haust hefði þurft að halda rétt á spilunum í ár til að forðast frekari vandræði. Þannig hefði ekki verið nóg að vera bjargað síðasta haust heldur þyrfti að vanda til verka út þetta ár til að komast hjá lausafjárvanda.

Yngvi Örn sagði þó að vaxtastefna evrópska seðlabankans myndi ekki alltaf henta íslenskum aðstæðum og mikilvægt væri að hafa það í huga þegar rætt væri um upptöku evrunnar. Auk þess gerði krónan það að verkum að auðveldara væri fyrir íslensk stjórnvöld að bregðast við erfiðum aðstæðum. Þannig væri það ekki gallalaust að vera með evru.