Stjórn BioStratum hefur samþykkt drög að samningi (Term Sheet) við fjárfestingasjóðinn TM Partners. Miða drögin á því að TM Partners verði leiðifjárfestir í 40 milljón dala fjármögnun sem byggir í megin dráttum á því að TM Partners leggja fram 10 milljónir dala, núverandi hluthafar leggja fram 10 milljónir dala og aðrir nýir hluthafar leggi fram 20 milljónir dala. Verðmatið á félaginu fyrir fjármögnun er 52 milljónir dala.

Greiðslan verður í tveim hlutum þ.e 20 milljónir dala við undirritun samnings og svo 20 milljónir dala þegar búið er að semja við lyfjafyrirtæki um áframhaldandi prófanir og markaðssetningu á Pyridorin sem er það lyf félagsins sem lengst er komið í lyfjaþróunarferlinu, en þó ekki síðar en 31. des 2006.

Segja má að þessi fjármögnun sé BioStratum Inc. nauðsynleg því félagið er ekki fjármagnað lengur en til desember næstkomandi. Þrátt fyrir að félagið sé komið með spennandi lyf þar sem er sykursýkislyfið Pyridorin þá virðist samningsstaðan ekki hafa verið sterk. Ætlunin er að nýta það fé sem fæst í þessari fjármögnun meðal annars til að styrkja stöðu félagsins í samningaviðræðum við lyfjafyrirtæki um Pyridorin. Aðrar rannsóknir félagsins hafa vegna fjárskorts að mestu legið niðri undanfarin ár eins og segir í frétt frá félaginu.

Það er mat stjórnar og stjórnenda BioStratum að samningsdrögin við TM Partners endurspegli núverandi ástand á framtaksfjárfestamarkaðinum. Það er sömuleiðis skoðun þessara sömu aðila að þrátt fyrir tiltölulega lágt verðmat á félaginu í samningsdrögunum frá TM Partners og það að núverandi hluthafar þurfi að taka töluverða þynningu á eignahlut sínum, þá komi aðkoma nýrra fjárfesta til með verða félaginu og eigendum þess til góðs þegar upp er staðið. Af drögunum má ráða að eldri hluthafar verði að leggja félaginu til nýtt hlutafé. Þess má geta að Líftæknisjóðurinn hf. á um 8% í BioStratum Inc. og er það stærsta eign sjóðsins.