Ekkja John Lennon, Yoko Ono, hefur lagt fram kæru á hendur tónlistarútgáfufyrirtækinu EMI og dótturfyrirtæki þess, Capitol Records, vegna vangoldinna höfundarlauna fyrir notkun á lögum Lennon, segir í frétt Dow Jones.

Ono fer fram á að EMI greiði sér 680 milljónir vegna þessa, en í kærunni segir að fyrirtækið hafi vísvitandi og með yfirlögðu ráði komið sér undan að greiða henni höfundarlaunin. Hún segir einnig að bókhald EMI sé vafasamt og ófullnægjandi.

Talsmenn EMI vildu ekki tjá sig um einstök atriði kærunnar, en sögðu að skiljanlegt væri að listamenn geri athugasemdir við greiðslur höfundarlauna, þar sem plötusamningar séu oft talsvert flóknir.