Jón Gnarr, stofnandi Besta flokksins og fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík, er einn þeirra fjögurra sem hlýtur friðarviðurkenningu LennonOno-sjóðsins í ár. Hinir sem viðurkenninguna hljóta eru Jann Wenner, einn stofnenda og útgefandi bandaríska tónlistartímaritsins Rolling Stone, Jeremy Gilley, stofnandi samtakanna Peace One Day, og stallsysturnar Doreen Remen og Yvonne Force Villareal, stofnendur góðgerðarsamtakanna Art Production Fund.

Fram kemur á vef LennonOno-sjóðsins að viðurkenningarnar verði afhentar á afmælisdegi John Lennon 9. október næstkomandi.

Jón og aðrir þeir sem hljóta viðurkenninguna bætast í hóp með þeim Lady Gaga, Alice Walker, Pussy Riot og Michael Pollan.