Myndbandasíðan Youtube hefur hleypt af stokkunum nýju verkefni þar sem eigendum YouTube rása verður gert kleyft að innheimta áskriftargjald af áhorfendum. Í fréttatilkynningu YouTube segir að nú þegar hafi um milljón rásir á síðunni einhverjar tekjur af auglýsingum, sem fyrirtækið deilir með framleiðendum efnisins.

Lágmarksáskriftargjald verður 0,99 dalir á mánuði og verður hver áskriftarrás með tveggja vikna ókeypis prufutíma. Sem dæmi um áskriftarrás er rás bandaríska barnaefnisframleiðandans Sesame Street, en á rásinni verður hægt að horfa á heila þætti þegar áskriftin verður virk. Á rás UFC verður hægt að horfa á heila bardaga í blönduðum bardagaíþróttum.

Áskriftarrásum verður fjölgað eftir því sem á líður.