Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar telur að farnar hefðu verið aðrar leiðir við innleiðingu kaupaukakerfis í Landsbankanum, hefði það verið gert í dag.

„Ég held að það séu allir sammála um það að ef þetta væri að gerast í dag þá væri þetta ekki gert svona. Það gerðist hinsvegar fyrir mörgum árum að þetta var ákveðið með þessum hætti og maður veit ekki alvega hvað aðstæður voru uppi. Hvort þetta var eitthvað sem kröfuhafar létu af hendi án þess að ríkið bæri kostnað af því eða hvort það var ríkið sem bar kostnaðinn af því. Þetta vitum við ekki og það myndi skipta máli hvaða skoðun maður hefur á þessu. Það myndi skipta máli varðandi hvaða skoðun maður hefur á þessu. En maður hefur í sjálfu sér ekkert á móti því að starfsmenn þarna fái þessi hlutabréf ef kröfuhafar hafa krafist þess. Það er í sjálfu sér ekkert alslæmt," sagði Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar í Vikulokunum í morgun um úthlutun hlutabréfa Landsbankans.

Tilkynnt var í vikunni hvernig úthlutun hlutabréfa, að andvirði 4,7 milljarða króna, til starfsmanna Landsbankans yrði háttað. Hún byggir á samningi sem gerður við kröfuhafa bankans í desember 2009. Formaður bankaráðs segir að ekkert kaupaukakerfi sé nú við lýði í bankanum og engin áform um slíkt.