Komi til þess að íslenska ríkið muni veita Icelandair beina ríkisaðstoð í formi ríkisábyrgðar lána, beinnar lánsfjármögnunar eða nýs hlutafjár yrði það ekki í fyrsta sinn sem ríkið myndi veita félaginu hjálp. Félagið varð til árið 1973 við sameiningu Loftleiða og Flugfélags Íslands sem var í stórum dráttum fyrir tilstuðlan stjórnvalda. Á þeim tíma átti ríkið hlut í Flugfélagi Íslands og hafði félagið í nokkur skipti þurft að fá aðstoð ríkisins áratuginn á undan.

Eftir sameiningu félaganna tveggja fengu Flugleiðir ríflega 13,5 milljóna dollara lán með ríkisábyrgð til flugvélakaupa árið 1975 en til að finna síðustu ríkisaðstoð til Flugleiða eða Icelandair þarf hins vegar að fara 40 ár aftur í tímann eða til ársins 1980. Það ár var félaginu veitt lán með ríkisábyrgð vegna mikils rekstrarvanda. Aðdragandinn að þeirri ríkisaðstoð verður ekki rakinn hér en segja má að þær aðstæður og umræðan sem uppi var þá minni að einhverju leyti á aðstæður nú þó að orsökin sé vissulega allt önnur.

Þeim sem vilja lesa nánar um aðdraganda ríkisaðstoðarinnar árið 1980 má benda á opnuumfjöllun í Dagblaðinu frá því í nóvember 1980 og lesa má hér .

Síðustu 40 ár hefur hins vegar aldrei komið til þess að íslenska ríkið hafi þurft að veita félaginu beina ríkisaðstoð. Eftir hryðjuverkaárásirnar á tvíburaturnanna þann 11. september 2001, þurfti ríkið að vísu að veita ríkisábyrgð vegna trygginga félagsins en það átti einnig við um nær öll ríki og flugfélög heimsins þar sem tryggingarfélög hreinlega neituðu að veita tryggingar á flugvélum eftir árásirnar. Þá átti þetta einnig við um önnur flugfélög á landinu t.a.m. Air Atlanta sem var með stóran flugflota og því má segja að ekki hafi verið um ríkisábyrgð að ræða í þeim skilningi sem nú er rætt um.

Eftir hrunið 2008 lenti Icelandair einnig í miklum hremmingum og fylgdust stjórnvöld á þeim tíma náið með félaginu, tilbúin að grípa inn í ef þyrfti. Til þess kom þó ekki og eftir fjárhagslega endurskipulagningu og hlutafjárframlag Framtakssjóðs Íslands hófst glæst endurreisn félagsins sem segja má að hafi náð hámarki sínu árið 2016.

Eina aðkoma ríkisins að fjármögnun félagsins síðustu ár var í raun í gegnum 80 milljóna dollara lán til endurfjármögnunar frá ríkisbankanum Landsbankanum á síðasta ári. Það lán er hins vegar ekki með ríkisábyrgð og lét Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, hafa það eftir sér á þeim tíma að fásinna væri að tala um ríkisábyrgð þar sem bæði erlendir og innlendir fjármögnunaraðilar höfðu sóst eftir viðskiptum við félagið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .