Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar, segir að hótel séu eina atvinnuhúsnæðið sem sé í byggingu á höfuðborgarsvæðinu í dag. Hann telur að mikil fjölgun hótela sé áhættusöm til skemmri tíma. „Það yrði mjög íslenskt að fara fram úr sér. Maður er aðeins hræddur við þennan markað til skemmri tíma. Til lengri tíma séð hef ég engar áhyggjur af þessu. Það markast bara af því að það er hagvöxtur í heiminum. Heimurinn er alltaf að verða ríkari og ferðamennskan á einungis eftir að aukast. Fólk fer í frí, vill ferðast og upplifa eitthvað nýtt. Síðan koma skellir, það er bara þannig. Það þarf bara eitt slæmt eldgos og það hrynur eitt ár.

Þetta er sveiflukenndur geiri og til skemmri tíma hefur maður alltaf áhyggjur þegar svona ofboðsleg aukning er í gangi, en ég hef í sjálfu sér engar áhyggjur af þessu til lengri tíma séð,“ segir Garðar.

Eik á einungis tvö hótel, í Þingholtsstræti og Austurstræti, og því er einungis brot af eignasafni félagsins í því formi. Að sögn Garðars stendur félagið ekki að baki uppbyggingu hótela í dag en ekki sé hægt að útiloka það til lengri tíma litið. „Ef maður hefur einhver tækifæri til að breyta og bæta þá munum við skoða fjárfestingar í hótelum. En við þurfum að horfa svolítið til lengri tíma og vera viss um að það geti tekið á sig sveiflu. Við útilokum það ekki en ég vil ekki segja neitt um það núna. Verð hefur verið að hækka og hætta er á offramboði, svo það þyrfti að vera einhver raunveruleg ástæða til að við færum inn núna. Við þyrftum að sjá einhver aukatækifæri í því.“

Nánar er rætt við Garðar Hannes í Viðskiptablaðinu sem kom út 31. júlí 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn tölublöð.