„Það þýddi þá ekki annað en erlenda skattlagningu á íslenskan atvinnurekstur,“ segir Ólafur Egilsson, stjórnarformaður íslensks hátækniiðnaðar, um þær hugmyndir Þórunnar Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra að Ísland afsali sér mögulegum útblásturskvótum í alþjóðlegu samningaviðræðum sem framundan eru. Þetta kemur fram í 24 stundum í dag.

Þar segir að Íslenskur hátækniiðnaður hyggist reisa olíuhreinsistöð á Vestfjörðum í samstarfi við öfluga erlenda aðila. Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra svaraði fyrirspurn um olíuhreinsistöðina á Alþingi í byrjun þessa mánaðar á þann veg að ljóst væri að losun frá henni rúmist ekki innan losunarheimilda Íslands samkvæmt Kyoto-bókuninni fyrir árin 2008 til 2012. Því þyrfti annað tveggja að koma til hjá framkvæmdaaðilanum, förgun/nýting koltvísýrings eða aðkeypt losunarheimild erlendis frá af hálfu hans.

Ólafur segir ekki rétt að miða við Kyoto-tímabilið því það er ekki gert ráð fyrir að stöðin taki til starfa fyrr en eftir lok þess. „Umhverfisráðherra hefur kosið að halda því fram að losun frá olíuhreinsistöð sé þrefalt meiri en reyndin er, en hins vegar talað um að Ísland afsali sér þeim kvótum sem landið hefur möguleika á að fá og að íslenskum fyrirtækjum verði gert að kaupa sér kvóta erlendis frá.“

Hann segir verkefnið í góðum farvegi. „Það kom verkfræðingur frá samstarfsaðilum okkar, Geostream, hingað í síðasta mánuði og staðfesti að aðstæður fyrir vestan væru mjög heppilegar. Þessar upplýsingar hafa gengið inn í framhaldsviðræður sem hafa átt sér stað við væntanlega fjárfesta og þátttakendur í byggingu stöðvarinnar.“

Fyrirtækið sem íslenskur hátækniiðnaður hefur átt í viðræðum við heitir Katamak-NAFTA og er dótturfyrirtæki Geostream. Á meðal helstu samstarfsaðila þess eru stærstu olíufélög Rússlands, Gazprom og Lukoil, og vestrænu olíurisarnir Shell og Exxon Mobil.

Á heimasíðu Katamak-Nafta kemur einnig fram að félagið hafi valið Íslands sem stað fyrir olíuhreinsistöð vegna þess að hér sé orkukostnaður afar lágur, landfræðileg staðsetning landsins henti vel og að hér sé hagstætt fjárfestingaumhverfi. Þá er það talið til kosta að flestar ákvarðanir vegna framkvæmdarinnar liggi hjá sveitarstjórnum og ákvörðunarferlið geti því gengið hratt fyrir sig.