Bell lúxusþyrla Magnúsar Kristinssonar, eiganda Toyotaumboðsins og útgerðarmanns í Vestmannaeyjum, er nú til sölu.

Í sölulýsingu á vefsíðu Helicopter Exchange kemur fram að þyrlan sé til afhendingar strax.

Vélin er af gerðinni Bell 430 S/N 49042 græn að lit og af árgerð 1998. Hún ber einkennisstafina TF-HMK og var afhent ný árið 1999 og hafa aðeins verið tveir eigendur frá upphafi.

Þyrlan er vel búin og með fuglheldum framrúðum, skyggðum hliðargluggum og gullhúðuðum dyrahúnum og dyraþrepum.

Þyrlan er með fyrirtækjainnréttingu með 3+3 sætum og ljósri leðurinnréttingu og teppum í stíl. Þá er rafstýrð „limmósínurúða” á milli stjórnklefa og farþegarýmis.

Veitingaaðstaða er að sjálfsögðu afturí með rósaviðarklæðningu og gullhúðum skreytingum.

Þá eru blaðastandur,  hljómtæki og tveir farsímar einnig í innréttingunni. Engar upplýsingar eru gefnar á vefsíðu Helicopter Exchange um söluverð þyrlunnar.