Nýjasta bók spennusagnahöfundarins Yrsu Sigurðardóttur, Brakið , er í efsta sæti á metsölulista Rannsóknarseturs verslunarinnar fyrir dagana 18. desember til 24. desember. Þá er bókin jafnframt mest selda bókin á Íslandi á þessu ári.

Þetta er þriðja vikan í röð sem Brakið er mest selda bókin en í þar síðustu viku velti hún Einvíginu eftir Arnald Indriðason úr sessi. Einvígið hafði þá verið mest selda bókin í þrjár vikur á undan. Einvígið var þó í öðru sæti listans í sömu viku og er jafnframt í öðru sæti yfir mest seldu bækur á árinu.

Listinn er nú tekinn saman vikulega og birtur á vef Rannsóknarsetursins.

Í þriðja sæti listans var bókin Gamlinginn sem skreið út um gluggann og hvarf eftir sænska rithöfundinn Jonas Jonasson. Hún hefur verið á topp 10 listanum lengi og var lengi vel mesta selda bókin það sem af var ári, en er nú komin í þriðja sætið á eftir Brakinu og Einvíginu.

Í fjórða sæti metsölulistans síðustu vikuna fyrir jól, og jafnframt ný á topp 10 listanum, var bókin Málverið eftir Ólaf Jóhann Ólafsson. Sú bók er jafnframt sjötta mest selda bókin á árinu.

Þá voru Heilsuréttir Hagkaups , eftir Sólveigu Eiríksdóttur, í fimmta sæti og bókin Útkall – ofviðri í Ljósufjöllum eftir Óttar Sveinsson í sjötta sæti síðustu vikuna fyrir jól.

Mest seldu bækurnar á árinu

Sem fyrr segir er Brakið nú mest selda bókin á árinu en það er í fyrsta sinn á þessu ári. Einvígið, sem nú er í öðru sæti yfir mestu seldu bækurnar á árinu, var í efsta sæti í síðustu viku og hafði þá ýtt Gamlingjanum sem skreið út um gluggann úr sessi.

Í fjórða sæti listans yfir mest seldu bækurnar á árinu eru Heilsuréttir Hagkaups og í fimmta sæti er Stóra Disney köku- og brauðbókin .

Rétt er að taka fram að þangað til í síðustu vikunni fyrir jól var Yrsa Sigurðardóttir með tvær bækur á topp 10 listanum yfir mest seldu bækurnar á árinu þar sem metsölubók hennar síðan í fyrra, Ég man þig , var á listanum.

Brakið eftir Yrsu Sigurðardóttur
Brakið eftir Yrsu Sigurðardóttur
© Aðsend mynd (AÐSEND)