Rithöfundurinn Yrsa Sigurðardóttir hefur gert samning við sænsku umboðsskrifstofuna Salomonsson. Hún verður ein af fjörutíu rithöfundum frá Skandinavíu sem eru á mála hjá skrifstofunni. Þar á meðal eru glæpasagnahöfundarnir Liza Marklund, Jo Nesbø og Jens Lapidus.

„Þau hringdu í mig og sögðust telja að ég gæti selt meira erlendis," segir Yrsa, um samninginn í samtali við Fréttablaðið . Blaðið segir að samningurinn hafi verið undirritaður síðasta vor.

Salomonsson mun hafa yfirumsjón með öllum samningum sem Yrsa gerir við erlend bókaforlög. Þær bækur hennar sem um ræðir eru síðasta bók hennar, Kuldi, og næstu bækur hennar, þar á meðal Lygi sem kemur út í lok vikunnar.