Nýjasta bók spennusagnahöfundarins Yrsu Sigurðardóttur, Brakið, hefur nú velt Einvíginu eftir Arnald Indriðason úr sessi sem söluhæsta bókin á á metsölulista Rannsóknarseturs verslunarinnar fyrir dagana 4. desember til 10. desember.

Einvígið hefur trónað á toppi listans sl. þrjár vikur. Listinn er nú tekinn saman vikulega og birtur á vef Rannsóknarsetursins. Athygli vekur að Braki kom beint inn á topp 10 listann í síðustu viku.

Einvígið var þó í öðru sæti metsölulistans í síðustu viku.

Í þriðja sæti listans yfir metsölubækur í síðustu viku er Heilsuréttir Hagkaups eftir Sólveigu Eiríksdóttur og í fjórða sæti er Útkall – ofviðri í Ljósufjöllum eftir Óttar Sveinsson. Báðar þessar bækur komu einnig inn á topp 10 listann í síðustu viku.

Gamlinginn enn vinsælasta bókin á árinu

Í fimmta sæti yfir metsölubækur í síðustu viku er bókin Gamlinginn sem skreið út um gluggann og hvarf eftir sænska rithöfundinn Jonas Jonasson. Hún er sem fyrr mest selda bókin það sem af er þessu ári. Í öðru sæti er Einvígið og í þriðja sæti er Stóra Disney köku- og brauðgerðabókin.

Brakið er nú komið í fjórða sæti yfir mest seldu bækur á árinu. Yrsa er einnig höfundur sjöttu mest seldu bókarinnar á árinu, Ég man þig, sem kom út fyrir síðustu jól.

Sjá listann í heild sinni.

Brakið eftir Yrsu Sigurðardóttur
Brakið eftir Yrsu Sigurðardóttur
© Aðsend mynd (AÐSEND)