Ótrúlegur vöxtur þýska hagkerfisins á fyrsta ársfjórðungi þessa árs hefur vakið áleitnar spurningar um hvort aðildarríkjum evrusvæðisins muni takast að standa af sér þá djúpstæðu efnahagslægð sem nú gengur yfir bandaríska hagkerfið.

Þvert á spár hagfræðinga jókst hagvöxtur í Þýskalandi, stærsta hagkerfi Evrópu, um 1,5% á fyrsta fjórðungi -- en til samanburðar mældist hagvöxtur í Bandaríkjunum aðeins 0,1% á sama tímabili.

Þetta er mesti hagvöxtur sem mælst hefur á einum ársfjórðungi í Þýskalandi í tólf ár og langt umfram meðalspá hagfræðinga.

Aukinn hagvöxtur var einkum drifinn áfram af fjárfestingu. Einkaneysla -- sem lengi hefur verið einn helsti akkilesarhæll þýska hagkerfisins -- virðist einnig hafa tekið við sér samfara minnkandi atvinnuleysi.

Svipaða sögu er að segja af hagvaxtartölum sem voru birtar í gær um franska hagkerfið: Hagvöxtur jókst um 0,6% á fyrstu þremur mánuðum ársins, sem var 0,2 prósentustigum meira en spár sérfræðinga gerðu ráð fyrir. Munaði þar mest um 3,1% aukningu í útflutningi, sem aftur varð til þess að auka innlenda fjárfestingu fyrirtækja.

Hinn mikli vöxtur Þýskalands gerir það að verkum að hagvöxtur aðildarríkjanna fimmtán á evrusvæðinu mælist 0,7% á fyrsta fjórðungi, borið saman við 0,4% vöxt í mánuðunum þremur þar á undan. Þessi óvænta aukning gæti orðið til þess að hagvaxtarspár fyrir árið 2008 verði uppfærðar.

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í erlendum fréttum í Viðskiptablaðinu á morgun.

Áskrifendur geta, frá kl. 21 í kvöld lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér.