Í fyrsta skipti hefur þýska ríkisstjórnin þjóðnýtt hluta af einkabanka en í dag var tilkynnt að þýska ríkið hefði látið Commerzbank hafa 10 milljarða evra í skiptum fyrir 25% eignarhlut í bankanum.

Commerzbank, sem er næst stærsti útlanabanki Þýskalands, hafði þegar fengið um 8 milljarða evra að láni frá ríkinu þannig að nú hefur ríkið samtals sett um 18 milljarða evra í bankann í þeirri von að halda í honum lífi.

Þess ber að geta að um þessar mundir er verið að leggja lokahönd á yfirtöku Commerzbank á öðrum þýskum banka, Desdner sem bankinn kaupir af Allianz fyrir um 5 milljarða evra.

Upprunalega ætlaði bankinn að borga helmingi meira, eða 10 milljarða evra en skar tilboð sitt niður um helming í haust og gerði hluthöfum Dresdner lokatilboð upp á 5 milljarða evra sem þeir tóku.

Viðmælendur Reuters fréttastofunnar segja þýsk yfirvöld vera að senda þau skilaboð að þau styðji yfirtökuna og hafi þess vegna gripið inn í nú með aukið fjármagn.