Borgarstjóri Hamborgar, Ole von Beust, tilkynnti á blaðamannafundi í gær að þýska ríkið hygðist kaupa hlut í móðurfélagi Airbus, EADS (European Aeronautic Defence & Space), segir í frétt Down Jones.

EADS er meðal stærri flugiðnaðar og hergagnafyrirtækja í heiminum og fer stærsti hluti rekstursins fram í Þýskalandi, Frakklandi, Spáni og Bretlandi, en einnig í Bandaríkjunum og Ástralíu.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segir hinsvegar að engin ákvörðun um málið hafi verið tekin, en að ekkert sé þó útilokað í þeim efnum. Hún segir að það sé forgangsatriði að tryggja fyrirtækinu trausta fjárfesta.