Þýska ríkisstjórnin ræðir nú björgunaraðgerðir til að hjálpa fasteignafélaginu Hypo Real Estate Holding, en klippt var á lánalínur félagsins í vikunni. Björgunin mun að öllum líkindum kosta um 35 milljarða evra, að því er kemur fram hjá Bloomberg.

Fjármálaráðherra Þýskalands segir að allir sem koma að þessu máli séu vonandi meðvitaðir um sína ábyrgð: „Við sjáum til hvernig okkur tekst til með að hreinsa upp þetta klúður."

Þýska ríkið hefur sagt að fasteignafélagið sé of stórt til að rúlla. Björgunaraðgerðirnar eru leiddar af ríkinu en fjöldi banka kemur einnig að málinu.

Í þýska dagblaðinu Die Welt segir að Hypo Real Estate þurfi 20 milljarða evra í lok næstu viku til að lofa af, og alls 50 milljarða evra á þessu ári. Allt að því 100 milljarða evra þarf síðan til loka næsta árs. Talsmenn Hypo hafa ekki viljað tjá sig um málið eða staðfesta þær tölur um fjármögnunarþörf sem komið hafa fram.