Þýska væntingavísitalan lækkaði í október í fyrsta skipti frá því í september 2008, samkvæmt gögnum frá GfK hagfræðistofnuninni.

Vísitalan hefur að mestu staðið í stað síðustu mánuði en mælist nú 4 stig, var 4,2 stig í september s.l.

Helstu ástæður fyrir lækkun vísitölunnar eru hækkandi eldsneytisverð og ekki síst svartar spár um aukið atvinnuleysi í Þýskalandi.

Þýska ríkisstjórnin hefur boðað skattalækkanir upp á um 24 milljarða evrur en þar er um að ræða lækkanir bæði á tekjuskatt og eins skattgreiðslum fyrirtækja. Hins vegar gefur allt til kynna að töluverður halli verði á fjárlögum næsta árs.

Wolfgang Schaeuble, nýskipaður fjármálaráðherra Þýskalands gagnrýndi skattatillögur Angelu Markel harðlega í nýafstaðinni kosningabaráttu. Í viðtölum síðustu þá hefur Schaeuble margsagt að nauðsynlegt sé að lækka skatta.

Þýskir fjölmiðlar greina frá því í dag að lækkun væntingavísitölunnar gefi til kynna aukna svartsýni Þjóðverja. Væntingavísitala þýskra fjárfesta hefur rokkað nokkuð síðustu 12-18 mánuði. Væntingavístala GfK, sem er hér til umræðu, hefur hins vegar lítið breyst eins og áður kom fram en að sögn Reuters fréttastofunnar veldur lækkun hennar stjórnvöldum töluverðum áhyggjum.