Samdráttur í útflutningi ógnar nú verulega þýska hagkerfinu en útflutningur þessa stærsta hagkerfis Evrópu dróst saman um 9,7% á fyrsta ársfjórðungi þessa árs.

Útflutningur er veigamikill í þýska hagkerfinu og því getur samdráttur haft veruleg áhrif á hagkerfið en þá hafa fjárfestingar fyrirtækja dregist saman um 7,9%.

Þá hefur evran verið að styrkjast gagnvart Bandaríkjadal sem hefur einnig neikvæð áhrif þýsk útflutningsfyrirtæki.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands sagðist í þýskum fjölmiðlum í gær hafa verulega áhyggjur af minni útflutningi en ítrekað þó að yfirvöld þar í landi hafi þegar heitið því að verja allt að 80 milljörðum evra til að koma hagkerfinu í gang á ný, eins og hún orðaði það.

Ralph Solveen, hagfræðingur hjá Commerzbank segir í samtali við Bloomberg fréttaveituna að allt útlit sé fyrir að þýska hagerfið haldi áfram að dragast saman á þessum ársfjórðungi en allt bendi þó til þess að eitthvað réttist úr kútnum á seinni helmingi ársins.