Þýskaland er hlynnt tillögum um að stækka björgunarsjóð evruríkja, jafnvel þó að slíkt þýði auknar skuldbindingar fyrir ríkið. Stærð sjóðsins í dag er 440 milljarðar evra og hefur hingað til verið leitað í sjóðinn til að aðstoða Grikkland og Írland.

Financial Times greinir frá og hefur heimildir sínar eftir einstaklingum sem þekkja til málsins í Berlín og Brussel. Talið er að stækkun sjóðsins myndi samþætta evruríkin 17 frekar. Ef allt gengur samkvæmt áætlun verður tillögur um stærri sjóð samþykktar á næsta fundi stjórnarleiðtoga ESB-ríkja í febrúar.

Evruríki hafa glímt við miklar skuldir frá efnahagskreppu og Grikkland og Írland þegar þurft að leita aðstoðar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og björgunarsjóði evruríkja. Lagt hefur verið til í töluverðan tíma að stækka sjóðinn, sér í lagi vegna þess að ekki sér fyrir endann á skuldavanda ríkjanna. Fyrir utan ríkin tvö sem leitað hafa sér aðstoðar er vandinn mestur á Spáni, á Ítalíu og í Portúgal. Það hefur helst staðið á Þýskalandi, sem óumdeilanlega stendur traustustu fótum innan ESB, að stækka sjóðinn hingað til. Slíkt kallar á frekari skuldbindingar af hálfu ríkisins.