„Þýskir viðskiptavinir Kaupþings eru á taugum vegna sparnaðar síns,“ segir í frétt þýska blaðsins Die Welt, einnig að alger óvissa sé um innistæður þýskra sparifjáreigenda vegna Kaupþings Edge, sem nú hafi verið lokað.

Þá kemur og fram að fjármálayfirvöld í Austurríki hafi fryst allar innistæður Kaupþings þar í landi.

Blaðið segir að Kaupþing sé ekki aðili að tryggingasjóði þýskra banka og því séu innistæðurnar á Kaupþing Edge þar í landi á ábyrgð hins íslenska tryggingasjóðs innistæðueigenda sem tryggi hverjum reikningseigenda að minnsta kosti 20.800 evrur, ef til þess þyrfti að koma.

Af hálfu Kaupþings er því haldið fram að „afar ólíklegt“ sé að á þetta muni reyna þar sem nægar eignir standi á móti þýsku innistæðunum.

Aftur á móti er ljóst að starfsemin í Þýskalandi heyrir undir fjármálayfirvöld á Íslandi.

„Forsætisráðherra Íslands, Geir Haarde, tilkynnti í upphafi vikunnar að allar innistæður í íslensku bönkunum væru tryggðar. Hvort það gildir líka fyrir hina þýsku viðskiptavini hefur ekki fengist staðfest af bankanum [Kaupþingi]. [-] Þá er einnig óljóst, hvort ummæli kanslara Þýsklands, Angelu Merkel, þess efnis að innistæður þýskra sparifjáreigenda væru tryggðar af þýska ríkinu gildi líka fyrir viðskiptavini Kaupþings,“ segir Die Welt.