Væntingavísitala þýskra atvinnurekenda, Ifo vísitalan, lækkaði nokkuð í desember og hefur nú ekki verið lægri í 18 ár að sögn Reuters fréttastofunnar.

Mestu munar þar um svartsýni þýskra útflytjenda en vegna sterkrar evru hefur afkoma þeirra minnkað nokkuð.

Ifo vísitalan, sem mælir væntingar 7 þúsund atvinnurekenda, mældist 82,6 stig í desember en hafði mælst 84 stig í nóvember. Ifo stofnunin segir í tilkynningu að vísitalan hafi ekki mælst jafn lág frá því að óvissa ríkti um sameiningu Þýskalands snemma árs 1990.

Þá kemur fram í tilkynningu Ifo að fara þurfi allt til ársins 1982 til að finna jafn lága vísitölu meðal atvinnurekenda í vesturhluta Þýskalands.

Viðmælandi Reuters, hagfræðingurinn Ralf Umlauf hjá Helaba bank segir að allar hagtölur gefi ekki vonir um bjartar væntingar atvinnurekenda. Mjög ólíklegt er að þjóðarframleiðsla sé að aukast og ekki sér fyrir endann á fjármálakrísunni.

„Það sem gæti helst aukið væntingar eru frekari stýrivaxtalækkanir evrópska Seðlabankans,“ segir Umlauf.