Þýskir bankar eru með allt að 300 milljarða evra af verðlitlum verðbréfum í bókum sínum en þar af hefur aðeins fjórðungur verið afskrifaður. Þetta kemur fram í þýska tímaritinu Der Spiegel sem vitnar í könnun þýska seðlabankans og fjármálaeftirlitsins meðal 20 stærstu fjármálastofnana landsins, en könnunin hefur ekki verið birt.

Sérfræðingar stjórnvalda eru sagðir gera ráð fyrir mikilli þörf á leiðréttingu á verðmæti eigna bankanna sem geti leitt til mikils taps. Það geti haft í för með sér að bráðlega þurfi enn fleiri fjármálafyrirtæki á aðstoð ríkisins að halda. Ríkið gerir ráð fyrir að allt að einn milljarður evra gæti tapast.

Fjármálaráðherra hafnar því að ríkið stofni „Bad Bank“

Nýlega fékk Commerzbank aðstoð ríkisins og Landesbank LBBW hefur tilkynnt að hann þurfi á auknu eigin fé að halda. Að auki eru í bankageiranum vangaveltur um að fasteignalánabankinn Hypo Real Estate þurfi á frekari aðstoð að halda, segir í Der Spiegel. Í liðinni viku greindi Deutsche Bank, stærsti banki Þýskalands, frá milljarðatapi í síðasta fjórðungi.

Peer Steinbrück fjármálaráðherra hefur hafnað þeirri leið sem bankamenn hafa talað fyrir, að ríkið taki yfir verðlítil verðbréf bankanna með því að stofna svokallaðan Bad Bank. Ástæðan er sögð sú að með því gætu skuldir þýska ríkisins meira en tvöfaldast ef allt færi á versta veg, en ríkið skuldar nú einn milljarð evra.