Pólitískur þrýstingur Bandaríkjastjórnar og vaxandi stjórnunarkostnaður eru á meðal helstu ástæða þess að Dresdner Bank hefur fylgt í fótspor annarra þýskra fjármálafyrirtækja sem eru einnig að hörfa með starfsemi sína frá Íran, að því er systurblað Financial Times í Þýskalandi greinir frá. Í kjölfar ákvörðunar Dresdner Bank hefur íranski seðlabankinn varað þýska banka við því að brottför þeirra frá Íran muni hafa alvarlega afleiðingar í för með sér síðar meir - snúist þeim hugur og hafi áhuga á að hefja viðskiptastarfsemi á ný í landinu.

Blaðið hefur eftir háttsettum starfsmanni bankans að "Dresdner Bank sé að binda endi á alla starfsemi sína í Íran og við Írana". Útlánaviðskipti bankans hafa dregist verulega saman að undanförnu; í árslok 2006 höfðu útlán bankans þegar lækkað verulega og námu 500 milljónum evra, en núna hafa þau fallið enn meira og farið undir 100 milljónir evra.

Sífellt fleiri evrópskar fjármálastofnanir hafa dregið verulega úr umfangi viðskiptastarfsemi sinnar í Íran eða hætt öllum viðskiptum við klerkastjórnina, meðal annars þýsku bankarnir Deutsche Bank og Commerzbank, - sem FL Group á 3,24% hlut í - Credit Suisse og UBS. Í síðasta mánuði lokaði Deutsche Bank öllum einstaklings- og fyrirtækjabankareikningum sínum í landinu. Sumir stjórnmálaskýrendur hafa vísað til þess að evrópskir bankar óttast að verða af mun ábatasamari viðskiptahagsmunum í Bandaríkjunum verði þeir ekki við kröfu stjórnvalda í Washington um slíta öllum viðskiptasamböndum við Írana.

Allt frá því að Clinton-stjórnin setti einhliða viðskiptabann á Írana árið 1996 sökum stuðnings íranska stjórnvalda við hryðjuverkastarfsemi hafa Bandaríkjamenn reynt að einangra Írana innan alþjóðahagkerfisins, með því að þrýsta á erlend fyrirtæki um að stunda ekki fjárfestingar í Íran. Þau áform Bandaríkjanna fengu aukið vægi síðastliðið haust þegar öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti viðskiptaþvinganir gegn Írönum fyrir að hafa ekki farið að ályktunum ráðsins um að stöðva kjarnorkuáætlun sína. Sérfræðingar hafa hins vegar efasemdir um hversu mikil áhrif slíkar refsiaðgerðir muni hafa í þeim efnum, sérstaklega í ljósi þess að ekkert lát virðist vera á hækkandi olíuverði á heimsmarkaði, sem mikilvægasta tekjulind klerkastjórnarinnar í Teheran.

Þýskaland er ein stærsta viðskiptaþjóð Írana en í kjölfar ákvörðunar þýskra banka að hörfa frá landinu hefur útflutningur Þjóðverja til Íran minnkað verulega. Mohammad Jafar Mojarrad, aðstoðarseðlabankastjóri Írans, sagði í samtali við íranska fjölmiðla í gær að aðrir alþjóðlegir bankar muni hefja starfsemi í Íran í stað þeirra þýsku; nú þegar hafi bankar frá Asíu, Persaflóaríkjunum og Rússlandi gefið til kynna að þeir hafi áhuga á að koma á fót bankastarfsemi.