Þýskir bílaframleiðendur eru að eigin sögn að koma mjög illa út úr núverandi efnahagskreppu og segja sumir þeirra að minnkandi sala á bifreiðum hafi aldrei verið jafn hröð og um þessar mundir.

Frá þessu er greint á fréttavef BBC en vísað er í skýrslu sem samtök bílaframleiðanda í Þýskalandi birtu í morgun.

Þar kemur fram að samtökin  telja að næsta ár verði það lélegasta í 19 ár, eða frá árinu 1990. Þannig er gert ráð fyrir að um 2,9 milljónir bifreiða muni seljast á árinu.

Í skýrslunni er lýst yfir áhyggjum af bílaframleiðendunum Volkswagen, Daimler (sem framleiðir Mercedes Benz) og Porsche og óttast höfundar skýrslunnar að félögin séu það illa stödd vegna minnkandi sölu að ekki megi útiloka frekari rekstrarörðugleika á næstunni, jafnvel gjaldþrot þeirra minni.

Þá er sérstaklega tekið fram að fyrrgreind félög, ásamt fleirum, munu sjá sig tilneydd til að segja upp starfsfólki í byrjun næsta ár.

Í skýrslunni kemur fram að það er ekki bara minnkandi einkaneysla og hrun fjármálamarkaða sem orsaki minnkandi sölu. Sérstaklega er tekið fram að evran sé „allt of sterk“ og hafi verið og sterk meirihlutann af þessu ári. Margir bílaframleiðendur selja vörur sínar í öðrum gjaldmiðlum, þá helst Bandaríkjadal á meðan launakostnaður og nánast allur framleiðslukostnaður sé í evrum.

Ekki er sérstaklega minnst á kröfu um aðstoð hins opinbera í skýrslunni.