Væntingavísitala þýskra fjárfesta, svokölluð ZEW vísitala, féll um 27% í apríl frá fyrri mánuði. Vísitalan fór úr því að vera -32 stig í marsmánuði en mælist nú -40,7 stig, en búist var við lítilsháttar bata á milli mánaða. Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis.

ZEW vísitalan lýsir væntingum 307 þýskra stofnanafjárfesta og sérfræðinga og þykir vera góður mælikvarði á stöðuna í þýsku efnahagslífi. Mikil lækkun vísitölunnar á milli mánaða sýnir að svartsýni þýskra fjárfesta á efnahagshorfur í Þýskalandi fer nú vaxandi.

„Þýska hagkerfið hefur ekki farið varhluta af þeim titringi sem ríkir á alþjóðamörkuðum vegna lausafjárkrísunnar. Vaxandi svartsýni þýskra fjárfesta á líklegast rætur sínar að rekja til versnandi hagvaxtarhorfa á heimsvísu og vísbendinga þess efnis að lausafjárkrísan hafi grafið dýpra um sig en áður var talið og að áhrif hennar verði því langvinnari,“ segir í Morgunkorni.